„Þegar þú kaupir notað skip þá þarftu að eyða í viðgerðir og ég vissi að Íslendingarnir þyrftu að eyða miklum fjármunum í þær," segir Kevin O'Brien, fyrrum eigandi Oilean Arann, hinnar nýju Grímseyjarferju.
Fyrirtæki hans, O'Brien Shipping ltd, seldi Vegagerðinni skipið í nóvemberlok árið 2005 á 925 þúsund pund, eða tæplega 104 milljónir króna á þávirði. Síðan hafa verið greiddar rúmlega 280 milljónir króna í viðgerðir og endurbætur á því og Ríkisendurskoðun telur að heildarkostnaður vegna þess verði að minnsta kosti 500 milljónir króna.
Það kemur O'Brien alls ekki á óvart að kostnaðurinn við endurbætur á skipinu hafi verið svona hár. „Þú þarft stórt tékkhefti þegar þú kaupir notað skip því þau éta upp peninga. Skipið hafði verið í siglingum á hverjum einasta degi ársins frá því að við keyptum það. Það hafði ekki tíma til að fara í slipp eða neitt þannig. Það var því ekki fallegt skip og líklega ekki málað jafn oft og íslensk stjórnvöld myndu mála það, en þetta var sterkt skip sem hafði gengið í tíu ár milli eyjanna hérna og hafði því sannað sig."
O'Brien segir ástæðu þess að eigendurnir hafi ákveðið að selja skipið vera þá að þeir feðgar ætluðu að hætta í ferjubransanum. „Skipið var auglýst til sölu hjá skipamiðlurum í Englandi og Íslendingarnir hafa líklega séð það þar. Við vildum losna við skipið hratt og teljum okkur því hafa selt það ódýrt. Íslensk stjórnvöld hefðu átt að greiða helmingi meira fyrir það og má því segja að þau hafi unnið í lottóinu hvað varðar kaupverðið."
Nánar í Blaðinu