Safna undirskriftum gegn breytingu á Kolaportinu

Úr Kolaportinu.
Úr Kolaportinu.

Vinir Kolaportsins munu standa fyrir undirskriftarsöfnun í Kolaportinu um helgina til að mótmæla tillögu um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, sem mun hafa mikil áhrif á starfsemi Kolaportsins, gangi hún eftir.

Tillagan gerir ráð fyrir bílageymslu á annarri og þriðju hæð Tryggvagötu 19, þar sem Kolaportið er nú. Vinir Kolaportsins segja, að sú bygging muni hafa það í för með sér að lofthæð Kolaportsins lækki um helming, gólfflötur þess minnki um 20% og inngöngum fækki. Þá sé ljóst að Kolaportið verði ekki með rekstur í núverandi húsnæði sínu á meðan á framkvæmdum stendur. Ef bráðabirgðarhúsnæði finnist ekki verði Kolaportið lokað í allt að eitt og hálft ár. Óvíst sé hvort reksturinn þoli svo langa lokun. Segja þurfi upp öllu starfsfólki og öllum samningum við leigjendur og alls óvíst hverjir þeirra snúa aftur.

Undirskriftarlistanum verður skilað á skrifstofu skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar á mánudag en þann dag rennur út frestur til að koma með athugasemdir við tillöguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert