Sendiherra segir að Rússar þurfi ekki að láta vita af ferðum flugvéla

Norsk F-16 þota fylgir rússneskri Tu-95 sprengjuvél í júlí.
Norsk F-16 þota fylgir rússneskri Tu-95 sprengjuvél í júlí. Reuters

Viktor Ívanovítsj Tatarintsev, sendiherra Rússlands segir að Rússum beri engin skylda til að láta vita um ferðir herflugvéla á alþjóðlegu flugsvæði. Sagði sendiherrann í kvöldfréttum Sjónvarpsins, að Íslendingar eigi að venja sig við slík flug því sprengjuflugvélar Rússa muni fljúga reglulega inn á hlutlaus flugstjórnarsvæði, þó ekki inn í lofthelgi annarra ríkja.

Íslensk stjórnvöld hafa beðið um að rússnesk hernaðaryfirvöld láti vita þegar orrustuflugvélar fljúga inn í íslenska flugstjórnarsvæðið líkt og gerðist í morgun þegar átta sprengjuflugvélar fóru inn á svæðið milli Íslands og Færeyja. Ekki var látið vita af því flugi fyrirfram. Sendiherrann sagði um þetta, að ekkert ákvæði í alþjóðalögum kveði á um að erlend ríki tilkynni fyrirfram um flug véla inn á alþjóðlegt hlutlaust flugstjórnarsvæði. Því þyrfti ekki að blása þetta mál út.

Tatarintsev sagði, að íslensk stjórnvöld hefðu þó lagt fram formlega beiðni um að þau yrðu látin vita um slíkt flug. Enn væri hins vegar beðið svars frá Moskvu og um leið og það svar bærist yrðu íslensk stjórnvöld látin vita um það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert