Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, er ósammála rússneska sendiherranum á Íslandi um að flugumferð rússneskra herflugvéla komi stjórnvöldum hér á landi ekki við. Hins vegar sé það rétt hjá sendiherranum að herflugvélarnar átta hafi flogið á alþjóðlegu hafssvæði og þar með í fullum rétti.
Sendiherrann lét þau orð falla í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að Íslendingar ættu að venja sig við flugferðir rússneska hersins hér við land. Ingibjörg Sólrún sagði í dag í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að engin krafa hafi verið sett fram af íslenskum stjórnvöldum en þeirri ósk hafi verið komið á framfæri við rússnesk stjórnvöld um að þau láti vita af flugæfingum sínum. Íslensk stjórnvöld bíði enn eftir svari frá Rússum frá því í sumar þar sem krafist var útskýringa á flugi hér við land.
Ingibjörg Sólrún lítur þó ekki á að í uppsiglingu sé meiriháttar deilumál við Rússa. „Þetta er þeirra aðferð til að minna á sig og láta vita af því að þeir sem voru einu sinni stórveldi sem ætli sér áfram stóra hluti í heimsmálunum. Það er engin ástæða til að magna upp Rússagrýlu út af þessu máli."