Ríkisendurskoðun segir, að framkvæmd þjónustusamnings heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins við Sveitarfélagið Hornafjörð um heilsugæslu og öldrunarþjónustu geti ekki að öllu leyti talist fullnægjandi. Hafi heilbrigðisstofnunin t.d. ekki sett sér gæða- og þjónustumarkmið og ráðuneytið hafi ekki heldur þrýst fast á hana að gera það.
Segir Ríkisendurskoðun, að vegna ófullnægjandi mælinga á magni og gæðum þeirrar þjónustu sem heilbrigðisstofnunin veiti sé óvíst hvort fjárhagslegum hagsmunum ríkisins sé betur borgið með nýjum þjónustusamningi en ef ríkið annaðist sjálft reksturinn.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerði árið 2003 þjónustusamning við Sveitarfélagið Hornafjörð um Heilbrigðisstofnun Suðausturlands og gilti hann til ársloka 2006. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd þessa samnings kemur fram að samningurinn uppfylli þær formlegu kröfur sem gerðar hafi verið til slíkra samninga. Engu að síður sé lagt til að í nýjum samningi verði hlutverk aðila betur skilgreind og tilgreint hvernig árangur af honum skuli metinn.