Sturla mælti fyrir um samráð

Nýja Grímseyjarferjan við bryggju í Hafnarfirði.
Nýja Grímseyjarferjan við bryggju í Hafnarfirði.
Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Sturla Böðvarsson þáverandi samgönguráðherra tók um það pólitískt upplýsta ákvörðun að hafa heimamenn í Grímsey með í ráðum varðandi endurbætur á ferjunni Oileáin Árann. Þetta gerði hann eftir að hann kynntist óánægju Grímseyinga með kaup á ferjunni frá fyrstu hendi í ágúst 2005, þegar hann var þar staddur í embættiserindum.

Ríkisstjórnin hafði áður heimilað kaup á skipinu á þeim grundvelli að heildarkostnaður við kaup og endurbætur á því yrði 150 m.kr. Samgönguráðuneytið fól nokkru síðar Vegagerðinni að leita eftir samningum við Grímseyinga varðandi endurbæturnar og var kostnaðarviðmiðið 100 m.kr.

Heimildarmenn Morgunblaðsins eru sannfærðir um að auðveldlega hefði mátt ganga til samninga við litháska skipasmíðafyrirtækið sem átti lægsta tilboðið í útboði Ríkiskaupa varðandi breytingar á ferjunni. Litháarnir drógu tilboð sitt til baka þar sem þeir gleymdu að gera ráð fyrir málningu. Í stað þess að semja við Litháana var samið við Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. og var útboðslýsingu breytt nokkuð til að koma til móts við þann aðila, að undirlagi fjármálaráðuneytisins.

Heimildir Morgunblaðsins herma að það sé engum vafa undirorpið að verkinu hafi verið stýrt hingað heim með pólitísku handafli enda þótt forstjóri Ríkiskaupa vísi því alfarið á bug.

Talsverður núningur hefur verið milli verkkaupa og verksala meðan á endurbótum hefur staðið. Samfara þessu hefur kostnaður vaxið jafnt og þétt og verklok dregist verulega, einkum vegna ágreinings um aukaverk. Deilt hefur verið um túlkun útboðslýsingar og verksali talið henni ábótavant. Í því samhengi vekur athygli að Vélsmiðjan skoðaði skipið aldrei áður en samningur var undirritaður, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þar um. Taldi það ekki nauðsynlegt þar sem nægjanlegar upplýsingar lægju fyrir, m.a. í formi verklýsingar.

Sjá ítarlega umfjöllun um málefni Grímseyjaferjuna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka