Minnihluti fjárlaganefndar vill fresta afgreiðslu á greinargerð um Grímseyjarferju

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason

Fulltrúar minnihlutans í fjárlaganefnd lögðu til á fundi nefndarinnar í dag að hún fresti fullnaðarafgreiðslu á greinargerð Ríkisendurskoðunar frá 14. ágúst sl. um kaup og endurnýjun Grímseyjarferjunnar. Segir í áliti minnihlutans að mikilvægt sé að nefndin taki afstöðu til ágreinings sem hafi risið milli fjármálaráðuneytis og ráðherra annarsvegar og Ríkisendurskoðunar hins vegar um heimild til að ávísa greiðslum.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og einn nefndarmanna, segir að í skýrslu meirihlutans sé hvergi tekið á aðalatriðum málsins hvað varðar meðferð fjárreiðulaga. Þar að auki sé óvitað hvar málið sé statt hvað varðar kostnað og umfang og segir Jón það skyldu nefndarinnar að rannsaka málið frekar og fresta fullnaðarafgreiðslu þess.

Á fundinum lagði minnihlutinn til að fjárlaganefnd kallaði á sinn fund fultrúa rágjafarfyrirtækisins Navis-Fengs og fulltrúa skipasmíðastöðvarinnar Orms og Víglundar auk þess að fá fulltrúa úr áhöfn núverandi Grímseyjarferju til að gefa umsögn um hæfi ferjunnar. Þá var óskað eftir því að nefndin kallaði eftir áliti Ríkisendurskoðunar á fullyrðingum um sambærileg „brot” á ákvæðum fjárreiðulaga og eftir lögfræðiáliti um ágreining fjármálaráðherra og ríkisendurskoðanda. Minnihlutinn lagði einnig til að óskað yrði eftir því að fá erindisbréf verkefnishóps sem samgönguráðherra boðaði í ágúst sl. að yrði skipaður formaður hópsins boðaður á fund nefndarinnar.

Tillögum minnihlutans var hafnað af meirihlutanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert