Tvær langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev 95 (BEAR H) fóru inn á íslenska loftrýmiseftirlitssvæðið norður af landinu klukkan 5:30 í morgun. Að sögn utanríkisráðuneytisins flugu vélarnar í hringferð um landið og komu næst landinu u.þ.b. 43 sjómílur suður af Kötlutanga.
Utanríkisráðuneytinu bárust upplýsingar í gærkvöldi um að slíkt flug gæti verið væntanlegt og var Ratsjárstofnun, sem fyrr, á vakt vegna þessa.
Fylgst var með fluginu allan tímann af Ratsjárstofnun og upplýsingum miðlað til viðeigandi stofnana innanlands, m.a. til þess að tryggja öryggi almennrar flugumferðar. Einnig var skipst á upplýsingum við viðeigandi herstjórnir innan Atlantshafsbandalagsins og viðbrögð við fluginu samhæfð á milli þriggja bandalagsríkja, Íslands, Noregs og Bretlands.
Breskar orrustuþotur mættu sprengjuflugvélunum austur af landinu og fylgdu þeim norður eftir að mörkum loftrýmiseftirlitssvæðisins. Vélarnar rufu ekki lofthelgi Íslands.