Einar Hermannsson skipaverkfræðingur segir þann skaða sem hann hafi orðið fyrir vegna ummæla Kristjáns L. Möller um þátt hans í Grímseyjarferjumálinu aldrei verða bættan. Kristján sagðist í Blaðinu gær hafa beðið Einar afsökunar á ummælum sínum.
„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Ég er búinn að sitja undir þessum ásökunum ráðherrans sem hann hefur í raun aldrei rökstutt. En ég á ekki margra annarra kosta völ en að reyna að kyngja þessu." Aðspurður um hvort skaðinn sé bættur segir Einar að hann verði aldrei bættur. „Það fer ekki á milli mála að þetta hefur valdið manni sjálfum og manns nákomnustu ómældu hugarangri," sagði Einar í samtali við Morgunblaðið í gær. „Maður á eftir að hugsa sig tvisvar um áður en maður vinnur fyrir ríkisstofnun í framtíðinni fyrst maður er notaður sem blóraböggull fyrir mistök annarra."
Hann segir meðferð þingnefnda á Grímseyjarferjumálinu öllu vera í anda pólitískrar samtryggingar.