Lögmaður Einars Hermannssonar hótaði Kristjáni L. Möller samgönguráðherra málsókn vegna ummæla Kristjáns um Einar vegna nýju Grímseyjarferjunnar rúmri viku áður en að Kristján baðst afsökunar á þeim. Ummælin sem málið snýst um lét Kristján falla á tröppum stjórnarráðsins þann 13. ágúst.
Þar sagði Kristján orðrétt að „það verði ekki meira skipt við þennan ráðgjafa sem hefur verið í þessu máli frá byrjun. Hann heitir Einar Hermannsson." Ummælin birtust í kjölfarið í flestum fjölmiðlum landsins.
Ragnar H. Hall lögmaður sendi bréf til samgönguráðherra 13. september síðastliðinn þar sem hann gaf ráðherranum tækifæri til að biðjast opinberlega afsökunar á ummælunum og draga þau til baka. Að öðrum kosti myndi Einar höfða mál á hendur Kristjáni. Fjögurra daga frestur var gefinn til að setja fram afsökunarbeiðni. Samgönguráðherra baðst afsökunar á fimmta degi.
Nánar í Blaðinu