Hálfur milljarður til varnarmála

AWACS ratsjárflugvél, sem tók þátt í varnaræfingu hér á landi …
AWACS ratsjárflugvél, sem tók þátt í varnaræfingu hér á landi í sumar.

Nýr fjárlagaliður, varnarmál, er í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár og er gert ráð fyrir 533 milljóna króna útgjöldum vegna þeirra mála. Einnig hefur verið stofnaður fjárlagaliður vegna yfirtöku Íslands á rekstri Ratsjárstofnunar frá Bandaríkjamönnum og verða rekstrargjöld samkvæmt fjárlagafrumvarpinu rúmar 822 milljónir króna.

Undir liðinn varnarmál fellur varnarsamstarf Íslands vegna NATO, 200 milljónir, 100 milljónir vegna gæslu og viðbúnaðar á öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli og í Helguvík, og 60 milljónir vegna reksturs öryggissvæðis á Keflavíkurflugvelli.

Þá er óskað eftir 42 milljónum króna vegna endurnýjunar á þotugildrum fyrir herflugvélar á Keflavíkurflugvelli.

Þá er óskað eftir 40 milljóna framlagi vegna æfinga Bandaríkjahers á Íslandi, 30 milljóna framlagi vegna reksturs bygginga sem eru í eigu NATO á flugvellinum og samtals 44 milljóna vegna ýmissa smærri liða.

Auk fyrrgreindra liða er gert ráð fyrir 280 milljóna framlagi til fjármálaráðuneytisins til að mæta kostnaði við rekstur og umsjón með fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Fjárveitingin verður lækkuð þegar fasteignum á svæðinu hefur verið komin í borgaraleg not.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert