Í startholunum með Euroshopper-bjór

"Við erum í startholunum með Euroshopper-bjórinn. Hann er framleiddur í Hollandi, þannig að það er stutt að sækja hann," segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss.

Nú, fimmta árið í röð, liggur fyrir frumvarp á Alþingi sem heimilar sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum. Líkurnar á því að frumvarpið gangi í gegn hljóta að teljast sæmilegar, þar sem þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er mikill og meðflutningsmenn að frumvarpinu koma úr þremur flokkum; Sjálfstæðis-, Samfylkingu og Framsókn.

Guðmundur Marteinsson útilokar að Bónus hefji sölu á bjór merktum versluninni. "Við erum aðilar að Euroshopper og þeir eru með bjór. Við munum flytja hann inn."

Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar, útilokar ekki að verslunin markaðssetji bjór undir merkjum Krónunnar. "Við lokum ekki á það," segir hann. "Tíminn leiðir í ljós hvað gerist. Það má vel vera að það fari svo að fólk drekki Krónubjór."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka