„Mér líst mjög vel á nýja búninginn, hann er miklu frjálslegri en aðrir búningar sem við höfum klæðst," sagði Ingvar Guðmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Selfossi, í viðtali við sunnlenska fréttablaðið Dagskrána í gær. „Mér finnst búningurinn klæða lögreglumenn mjög vel, ekki síst nýja húfan sem kemur í staðinn fyrir derhúfuna."
Lögreglan tekur nú í notkun nýjan lögreglubúning, en sá gamli hefur verið notaður frá árinu 1990. Helsta einkenni nýja búningsins er taflborðsmynstrið, sem einnig skreytir lögreglubúninga í Bretlandi. Eins og gefur að skilja eru lögreglumenn með mismunandi skoðanir á búningnum, sem er mikið breyttur frá fyrri búningi.
Jónína Sigurðardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra fagnar því að menn hafi mismunandi skoðanir á búningnum. „Mönnum líst mismunandi vel á búningana í upphafi. Það er alltaf svoleiðis, segir Jónína „Sem betur fer hafa menn mismunandi skoðanir á búningunum."