Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum mbl.is var lagt hald á vopn af ýmsum gerðum í húsleit sem lögreglan á Suðurnesjum gerði á félagsheimili bifhjólaklúbbsins Fáfnis, sem er við Frakkarstíg í Reykjavík, síðdegis í dag. Auk þess var lagt hald á lítilræði af fíkniefnum, en málið tengist fíkniefnarannsókn. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ásamt sérsveitarmönnum ríkislögreglustjóra aðstoðuðu við húsleitina í dag.
Málið tengist jafnframt heimsókn félaga úr bifhjólaklúbbnum Vítisenglum hingað til lands, en þeim mun vera boðið í samkvæmi sem bifhjólaklúbburinn Fáfnir mun standa fyrir um helgina.
Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu margir Vítisenglar eru væntanlegir hingað til lands en samkvæmt upplýsingum mbl.is mun lögreglan á Suðurnesjum vera með mikinn viðbúnað á Flugstöð Leifs Eiríkssonar um helgina í tengslum við heimsóknina.
Tveir menn voru staddir inni í félagsheimili Fáfnismanna þegar lögreglan gerði þar húsleit í dag. Lögreglan ræddi við mennina en þeir voru ekki handteknir. Á bilinu 20 - 30 lögreglumenn tóku þátt í húsleitinni.