Átta meðlimum bifhjólasamtakanna Vítisengla (Hell's Angels) var í gærdag og gærkvöld neitað um leyfi til landgöngu við komuna til landsins. Eiginkonur tveggja voru með í för og líklegt er talið að þær fylgi mönnum sínum þó svo þeim standi til boða að sækja landið heim. Fólkið dvaldi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nótt. Gert er ráð fyrir að það fari allt úr landi með áætlunarflugi fyrir hádegið, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, og að ganga megi út frá því að tveir lögreglumenn fylgi hverjum og einum Vítisengli, alls sextán lögreglumenn – líkt og við sambærilegar aðgerðir áður.
Áfram verður fylgst með komuflugi til landsins um helgina og einnig fyrirhugaðri afmælisveislu bifhjólasamtakanna Fáfnis sem fram fer í kvöld, en meðlimir Vítisengla ætluðu að vera þar viðstaddir. Nokkrir Fáfnismenn biðu af þeim sökum í Flugstöðinni eftir félögum sínum fram eftir degi.
Samkvæmt heimildarmanni Morgunblaðsins eru nokkrir Vítisenglanna sem teknir voru höndum í gær með dóma á bakinu fyrir alvarleg brot. Í tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra kemur fram að samtökin tengist fjárkúgun, fíkniefnaviðskiptum og ofbeldisbrotum. Starfsemi þessari og veisluhöldum fylgi þá fíkniefnaneysla og ógn við frið og allsherjarreglu.
Enginn Vítisenglanna óskaði eftir lögmannsaðstoð eftir að þeim var synjað um landgöngu, samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra. Því er Oddgeir Einarsson, lögmaður hjá Opus, ósammála og fullyrðir hann að haft hafi verið samband við lögmannstofuna í gær og óskað eftir aðstoð. Aðspurður segist hann ekki hafa fengið að hitta mennina í gærdag.