Íbúa í fjölbýlishúsi í Grafarvogi fannst heldur hafa fjölgað í reiðhjólageymslu húsnæðisins að undanförnu og bað því lögreglu að grennslast fyrir um málið. Þegar lögreglu bar að garði voru þar ungir athafnamenn önnum kafnir við að gera við hjól, breyta þeim og bæta, að því segir á lögregluvefnum.
Að sögn lögreglu var geymslan nánast full af reiðhjólum af öllum stærðum og gerðum og gáfu drengirnir þá skýringu að þeir hefðu fundið þau víðsvegar um hverfið. Gerði lögreglumaður þeim grein fyrir að óskilamunum ætti að koma til lögreglu sem síðan reynir að hafa upp á eigendum. Drengirnir könnuðust ekki við slíkar reglur, en hyggjast bæta ráð sitt.