Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, gerði fjármagnstekjuskatt að umræðuefni í ræðu sinni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í morgun. Að sögn Árna er ljóst almennt séð að fjármagnstekjur hefðu jákvæðari áhrif á fjárhag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þeirra sem eru á landsbyggðinni.
„Varðandi fjármagnstekjurnar þá fer hluti þeirra af heildartekjum vaxandi hjá stórum hluta framteljenda. Þannig er hann yfir 5% af tekjum hjóna með miðtekjur og yfir. Ef og þegar vel gengur má reikna með því að hlutur fjármagnstekna allrar þjóðarinnar fari vaxandi miðað við launatekjur.
Í umræðunni hefur verið gripið á lofti að nokkur fjöldi framteljenda telur ekki fram aðrar tekjur en fjármagnstekjur. Á árinu 2006 var þarna um að ræða 2.381 einhleyping og 150 hjón.
Ef við skoðum einhleypingana fyrst þá voru rúmlega 2.100 aðilar af þeim hópi eða tæplega 90% með minna en 50 þúsund krónur á árinu í fjármagnstekjur og 95% af þeim hópi var undir einni milljón í tekjur á árinu. Hér er því að mestu um að ræða tekjulausa unglinga og námsmenn. Að teknu tilliti til persónuafsláttar var innan við 5%, eða 128 einstaklingar sem aðeins höfðu fjármagnstekjur á árinu 2006 sem voru umfram skattleysismörk.
Af 150 hjónum voru 57% með minna en 100 þúsund krónur í fjármagnstekjur og 61% voru með minna ein eina milljón í fjármagnstekjur á árinu. Að teknu tilliti til persónuafsláttar voru 54 hjón á árinu 2006 sem aðeins höfðu fjármagnstekjur sem voru umfram skattleysismörk.
Að sönnu eru í þessum hópi nokkur hjón og einstaklingar sem hafa afkomu sína af fjármagnseign. Ef þessir einstaklingar hafa ekki annan starfa en að sýsla með eignir sínar ber þeim að telja sér atvinnutekjur og greiða af þeim tekjuskatt og útsvar. Það skal tekið fram að þrátt fyrir að fjármagnstekjur hafi vaxið verulega á undanförnum árum hefur ekki fjölgað tiltakanlega í hópi þeirra sem telja einungis fram fjármagnstekjur. Til marks um þetta má nefna að álíka margir framteljendur nota einhvern hluta persónuafsláttar til að greiða fjármagnstekjuskatt nú og um aldamótin. Framkvæmd og eftirlit með reiknuðu endurgjaldi kann þó að þurfa að breytast verði breytingar hér á.
Annað atriði sem komið hefur til umræðu er að sveitarfélögin ættu að fá til sín hluta af fjármagnstekjuskattinum. Skattasérfræðingarnir segja að vísu að þótt fjármagnið sér hreyfanlegt þá sé hagnaður, og hann er undirstaða fjármagnsteknanna, ennþá hreyfanlegri. Að baki kröfum um hlut sveitarfélaganna um hlutdeild í þessum skattstofni hlýtur að vera sú hugsun að þær hafi einhver tengsl við viðkomandi landsvæði eða að eiganda fjármagnsins beri að greiða til búsetusveitarfélagsins hluta af þessum tekjum. Í þessari umræðu er fróðlegt að skoða hvernig fjármagnstekjuskatturinn skiptist á íbúa eftir sveitarfélögum. Almennt séð er ljóst að fjármagnstekjur hefðu jákvæðari áhrif á fjárhag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þeirra sem eru á landsbyggðinni.
Fjármagnstekjuskattur á mann sveiflast mjög milli ára eftir landsvæðum og því er þessi dreifing skoðuð sem meðaltal þriggja ára, frá 2004 til 2006. Að meðaltali nam fjármagnstekjuskattur einstaklinga 38.000 kr á íbúa á þessu tímabili. Þar sem hann er hæstur er hann yfir 200 þúsund á mann en þar sem hann er lægstur rétt nær hann yfir 2.000 kr.
Á sama hátt sveiflast upphæðin milli ára verulega innan sama sveitarfélags og eru dæmi um að tekjur á hvern íbúa vegna fjármagnstekna séu rúmlega hundraðfalt hærri eitt árið en það næsta. Ég fæ ekki séð hvaða röksemdafærsla gæti verið að baki því að sveitarfélög eigi að hafa hlutdeild í skattstofni sem gefur hæsta sveitarfélaginu ekki tíu sinnum heldur hundrað sinnum meiri tekjur á íbúa en lægsta sveitarfélaginu auk þess að búa við skattstofn sem sveiflast svo gríðarlega mikið frá einu ári til annars. Er þá ekki betra að ráðstafa tekjum í Jöfnunarsjóðinn, eins og við gerum í dag, og skipta framlagi úr honum eftir reglum sem taka mið af þörfinni," sagði Árni á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga.