Landsvirkjun hefur í kjölfar könnunarviðræðna við þrettán aðila ákveðið að taka upp viðræður við tvö fyrirtæki um sölu á raforku úr Þjórsá. Annað vill koma upp svonefndu netþjónabúi, eða gagnaveri, á gamla varnarliðssvæðinu í Keflavík en hitt kísilhreinsun fyrir sólarrafala í Þorlákshöfn. Ekki verður gengið til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi.
Nokkrir aðilar höfðu lýst áhuga á því að reisa netþjónabú á Íslandi en eftir könnunarviðræður hefur Landsvirkjun ákveðið að fara í viðræður við Verne Holding ehf. og hefur verið undirrituð viljayfirlýsing þess efnis. Staðfesti Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður Verne Holding, að fyrirtækið ætti í formlegum viðræðum við Landsvirkjun.
"Við erum svolítið að bíða eftir niðurstöðu varðandi lagningu nýs sæstrengs áður en meiri skuldbinding verður gerð. Við eigum í viðræðum við Farice um hann og gerum okkur vonir um að þær klárist fljótlega, það gæti orðið í næstu viku," sagði Vilhjálmur. Hann staðfesti ennfremur að líkleg staðsetning gagnaversins yrði á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Þar væri fyrir ákveðið húsnæði sem mætti nota og ekki þyrfti því að byggja frá grunni.
Vilhjálmur vildi ekki tjá sig um hvað Verne Holding væri tilbúið að borga fyrir raforkuna en fram kom hjá Landsvirkjun að vænta mætti hærra raforkuverðs í viðskiptum við netþjónabú og sólarkísil en við aðra stórkaupendur. Eftirspurn eftir orku væri langt umfram framboð og að ekki væri hægt að mæta þörfum allra.
Ekki hefur enn verið undirrituð viljayfirlýsing varðandi kísilhreinsunina sem á að rísa, a.ö.l. í Þorlákshöfn, ef samningar takast milli þess og Landsvirkjunar um orku. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er um erlent fyrirtæki að ræða.