OR hefur rætt við tug aðila um orkusölu

Orkuvinnslusvæði OR við Hengil.
Orkuvinnslusvæði OR við Hengil. mbl.is/RAX

Orkuveita Reykjavíkur hefur síðustu mánuði átt í viðræðum við tug aðila um orkusölu. Þar af eru sjö sem hafa hug á starfsemi sem ekki krefst losunarkvóta. Á meðal þeirrar starfsemi er kísilhreinsun, pappírsgerð og gagnavistun.

Þetta kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins.

Þar kemur fram, að hugsanlegir orkukaupendur hafi skoðað margvíslegar staðsetningar fyrir starfsemi s.s. í Ölfusi, í Helguvík og í næsta nágrenni Hellisheiðarvirkjunar.

Þá segir, að Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR, hafi dregið þá ályktun að forsendur orkusölusamnings til Alcan í Straumsvík séu brostnar eftir að Landsvirkjun tók þá ákvörðun að gera ekki samninga um orkusölu til nýrra álvera á suðvesturlandi á næstunni. Einsýnt sé, ekki verði af byggingu nýs álvers fyrirtækisins í Straumsvík og Orkuveitan geti ekki ein og sér útvegað fyrirtækinu næga orku í annað álver.

Orkuveita Reykjavíkur selur nú stórnotendum um 150 MW af orku og hefur gert samninga um afhendingu liðlega 200 MW til viðbótar á næstu árum. Í því skyni vinnur fyrirtækið nú að uppbyggingu Hellisheiðarvirkjunar og nýjar virkjanir við Hverahlíð og í Bitru eru í umhverfismati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert