Það sem Íslendingar lifa á

Það var líf og fjör um borð í skólaskipinu Dröfn RE í gær. Um tugur nemenda úr Lindaskóla í Kópavogi var þar að kynna sér sjávarútveginn, veiðar og aðgerð á fiski. Nemendurnir voru mjög áhugasamir og drukku í sig fróðleikinn og ekki spillti fyrir að fá fisk í soðið með sér heim að lokinni veiðiferð út á Sundin.

Guðrúnu Helgu Guðmundsdóttur fannst þetta mjög skemmtilegt og fróðlegt, en reyndar pínu ósgeðslegt að gera að fiskinum, sem spriklaði í höndum hennar. Hún hafði aldrei farið á sjó áður og heldur ekki gert að fiski en lét sig samt hafa það. „Þetta er allt í lagi, en ég veit ekki hvort ég legg sjómennskuna fyrir mig,“ sagði Guðrún Helga.

„Þetta er alveg frábært og gaman að kynnast þessu. Ég er sjálfur af sjóaraættum í Vestmanneyjum, svo það er um að gera að fá að kynnast þessu,“ sagði Gísli Grímsson. Hann sagðist þó aldrei hafa farið á sjó og togað en hann vonaðist til að fara á sjóinn í sumar. Þetta væri mjög skemmtilegt. „Það er gaman að fá að kynnast því sem Íslendingar lifa á,“ sagði Gísli.

Margrét Ármann er deildarstjóri tíunda bekkjar Lindaskóla. „Mér finnst þetta rosalega sniðugt fyrir krakkana og gott tækifæri fyrir þá að kynnast sjávarútvegi og sjómennsku. Það er mikilvægt fyrir þau að vita hvað er að gerast,“ sagði Margrét.

Allt í allt eru það tæplega 50 krakkar úr skólanum sem njóta þeirra forréttinda af fara með Dröfninni í veiðiferð í fjórum hópum. „Krökkunum finnst þetta alveg rosalega skemmtilegt og spennandi en svolítið ógeðslegt líka. Þetta er mjög góð fræðsla fyrir krakkana. Þau kynnast þessu ekkert öðru vísi en að reyna þetta sjálf. Þetta eru orðin svo mikil borgarbörn í dag. Þetta er mjög góð reynsla fyrir krakkana og það sést vel á svipnum á þeim hérna í aðgerðinni hvað þeir hafa gaman af þessu,“ sagði Margrét Ármann.

Þegar krakkarnir koma um borð byrjar skipstjórinn, Gunnar Jóhannsson, að kynna fyrir þeim björgunarbúnað um borð, enda er slíkt skylda þegar nýtt fólk kemur um borð, hvort sem um er að ræða gesti eða nýja menn í áhöfn. Síðan er þeim sýnt módel af trolli og sagt hvernig það virkar. Þá tekur fulltrúi Hafrannsóknastofnunar við sem að þessu sinni var Agnes Eydal. Hún fór yfir landhelgina, hafstrauma og lífið í sjónum, allt frá þörungum og upp í skíðishvali, sem nærast á smæstu lífverunum í hafinu, átunni. Það er komið inn á fjölmörg atriði og voru krakkarnir mjög áhugasamir og vissu í raun heilmikið um þetta allt saman. Gunnar skipstjóri segir krakka úr Kópavogi sérstaklega áhugasama þegar þeir komi um borð. Loks sáu þeir stutta mynd um sjávarútveginn.

Næst voru krökkunum kynnt tækin í brúnni og hvernig þau virkuðu. Loks var komið að veiðunum og fyrst var vitjað um krabbagildru. Í henni voru nokkrir trjónukrabbar og vöktu þeir mikla athygli krakkanna, sem voru reyndar misviljugir til að halda á þeim. Gildran var svo sett út á ný og haldið á togslóðina. Gunnar segir að mikið sé af fiski á Sundunum og þetta skipti var engin undantekning. Trollið var bara tvær þrjá mínútur í botni og aflinn góður á þeirra mælikvarða, líklega milli 100 og 200 kíló, mest lýsa og ýsa.

Þegar fiskurinn var kominn niður í móttöku byrjaði Agnes á því að segja þeim hvaða tegundir væru í aflanum og þeim voru sýnd handtökin við aðgerðina. Krakkarnir tóku vel til hendinni þótt handtökin væru kannski ekki beint fagmannleg og einni stúlkunni fannst reyndar nóg um og fór frekar upp á dekk, vildi ekki drepa fiskana. Í lokin fengu þau svo í soðið og fóru í land kát og glöð og dýrmætri reynslu ríkari.

Fyrsta ferðin af þessu tagi var farin 1998 og þá var um tveggja ára tilraunaverkefni að ræða. Síðan varð ekki aftur snúið og nú eru um 10.000 krakkar búnir að fara með skólaskipinu. Það er á haustin í Reykjavík, en á vorin er farið hringinn í kringum landið. Hulda Lilliendal sér um verkefnið af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins en einnig koma Fiskifélagið og Hafró að því. Hún segir að aðsóknin sé svo mikil að ekki sé hægt að anna eftirspurn. Erfitt sé að auka úthaldið því það sé mjög kostnaðarsamt.

Í þetta skipti bar svo til tíðinda að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra kom um borð og spjallaði við krakkana. „Þetta er verkefni sem við höldum að eigi heilmikið erindi við ykkur. Bæði er gaman að fara á sjóinn og sjá það sem þar fer fram og líka vegna þess að sjávarútvegurinn er okkar undirstöðuatvinnugrein og það er mikilvægt fyrir ykkur að þekkja dálítið vel inn á hana. Gera ykkur grein fyrir því hvað hún býður upp á. Þarna felast bæði tækifæri til starfa á sjó og í landi. Þetta er ekki bara að veiða fiskinn, það þarf að vinna hann, það þarf að selja hann og sinna ýmsu fleiru.

Síðan er mikilvægt fyrir ykkur að kynnast því hvað lífríkið okkar er fjölbreytt. Við lifum á þessu sem kemur úr sjónum og þurfum að nýta auðlindina skynsamlega. Við vitum að í hafinu er óskaplega mikil fjölbreytni og það er auðvitað hluti af því sem þið lærið núna. Ég veit að þið eruð að læra líffræði og ýmislegt annað sem kemur inn á þetta. Nú verður það hins vegar ljóslifandi fyrir ykkur. Mér finnst þið vera mikið forréttindafólk að fá tækifæri til að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig. Ég held líka að þetta opni augu ykkar fyrir því sem er að gerast og þið eruð að læra um í skólanum,“ sagði Einar K. Guðfinnsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert