Stofnað hefur verið hlutafélagið Atlantic Studios h.f. um rekstur kvikmyndavers í gömlu varnarstöðinni á Miðnesheiði. Stofnendur eru Hallur Helgason og Kvikmyndafélag Íslands. Félagið hefur gert samkomulag við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um kaup á 13 byggingum og nokkru landsvæði fyrir reksturinn.
Unnið er að skipulagningu og hönnun svæðisins en gert er ráð fyrir að þrjú 750–1200 fermetra stúdíó verði tilbúin til notkunar í vor. Við hönnunina koma við sögu bæði innlendir og erlendir ráðgjafar. Auk stúdíóanna er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir ýmsar stoðdeildir kvikmyndagerðarinnar svo sem skrifstofur, smíðaverkstæði, búningageymslu, leikmunageymslu, klippiaðstöðu, o.s.frv. Þá er í bígerð smíði vatnstanks, sem ætlaður er fyrir myndatökur í vatni, bæði undir yfirborði og á því.
Í tilkynningu segir að markmiðið sé að þjóna jafnt innlendri sem erlendri kvikmyndagerð. Rekstur versins verði hrein viðbót við þá þjónustu, sem þegar sé í boði á Íslandi.
Verkefnið er fjármagnað af Glitni.