Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkir að auglýsa Urriðafossvirkjun

Urriðafoss í Þjórsá.
Urriðafoss í Þjórsá. mbl.is/Sigurður Jónsson

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt samhljóða að auglýsa tillögu að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps þar sem gert er ráð fyrir Urriðafossvirkjun. Segir sveitarstjórnin, að samþykktin sé byggð á þeim forsendum, að staðaráhætta við Þjórsá vegna hugsanlegra flóða standist viðmið um hættumat vegna ofanflóða og því að samkomulag hafi náðst við Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir.

Sveitarstjórn samþykkti einnig, að setja þá skilmála í greinargerð með aðalskipulagstillögu, að hönnun virkjunar miðist við að yfirborð Heiðarlóns verði að hámarki 50 metrar yfir sjávarmáli eins og kynnt hafi verið í áhættumati, að lón verði einungis í árfarvegi og að farið verði að skilyrðum umhverfisráðuneytis vegna mats á Urriðafossvirkjun.

Sveitarstjórnin tekur fram, að samþykkt um auglýsingu á skipuagstillögunni feli ekki í sér ákvörðun um framkvæmdaleyfi vegna Urriðafossvirkjunar. Sveitarstjórn leggiáherslu á að Landsvirkjun nái samningum við landeigendur verði af fyrirhugaðri virkjun.

Tvær skipulagstillögur, A og B, voru kynntar á opnum fundi í Þjórsárveri 25. júní í sumar. Tillaga A gerði ráð fyrir hugsanlegri Urriðafossvirkjun en tillaga B gerði ekki ráð fyrir virkjun. Á fundi sveitarstjórnar þann 2. júlí samþykkti sveitarstjórn að fresta ákvörðun um tillögu til auglýsingar að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps þar til fyrir lægju nánari upplýsingar um áhættu af hugsanlegri Urriðafossvirkjun. Nú hefur sú ákvörðun verið tekin að auglýsa skipulagstillögu A.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert