Flutningaskipið Axel steytti á skeri í innsiglingunni inn í höfnina við Höfn í Hornafirði um klukkan átta í morgun. Samkvæmt upplýsingum hafsögumanns tókst skipverjum að losa skipið og er það nú á leið til hafnar í fylgd lóðsbáts og björgunarbáts.
Ekki er vitað hvað gerðist en nokkuð magn af olíu hefur lekið úr skipinu. Ellefu skipverjar eru um borð í skipinu og engan þeirra sakaði. Hægviðri er við Borgeyjarboða.
Nokkuð algengt er að skip taki niður í innsiglingunni við Höfn en algengast er þó að það gerist þar sem sandbotn er undir.