Varðskip á leið á strandstað við Höfn

mbl.is/Sigurður Mar

Ekki hefur tekist að koma vélum flutningaskipsins Axels sem steytti á skeri við Borgeyjarboða í innsiglingunni við Höfn í Hornafirði um klukkan átta í morgun í gang á ný og er það því enn á strandstaðnum. Þá er útfall og mikill mótstraumur á staðnum og því ekki talið vænlegt að reyna að draga skipið til hafnar að sinni. Lóðsbáturinn Björn lóðs og björgunarbátur eru við skipið auk þess sem varðskip er á leið þangað.

Gert er ráð fyrir að varðskip verði komið á staðinn eftir um þrjá klukkutíma en samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar er engin hætta talin á ferðum. Ekki hefur verið tekin ákvöðum um aðgerðir en hugsanlegt er að skipið verði dregið á Djúpavog.

Einhver olíuleiki virðist hafa komið að skipinu við strandið og eru björgunarsveitarmenn með dælur komnir á staðinn.

  Axel er 2500 tonna frystiskip, byggt árið 1989.  Skráður eigandi  þess er Dregg ehf en skipið er skráð á eyjunni Mön.  Áhöfn skipsins, 11 manns, er öll íslensk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert