Staðan um borð í flutningaskipinu Axel hefur batnað töluvert eftir að fleiri vatnsdælur voru settar í gang um borð í skipinu um klukkan níu í morgun. Skipið er nú kyrrstætt í mynni Vopnafjarðar og samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar er verið að skoða stöðuna í ljósi þess hvernig dælingin gengur. í kjölfarið verður ákveðið hvert skipinu verður siglt.
Björgunarbáturinn Sveinbjörn Sveinsson frá Vopnafirði kom með fleiri dælur að skipinu um klukkan níu í morgun og þegar þær höfðu verið settar í gang batnaði ástandið strax. Ekki liggur fyrir hvers vegna þær dælur sem fyrir voru í skipinu virkuðu ekki sem skyldi.
Sveinbjörn Sveinsson var kallað út í morgun en beiðni barst um aðstoð það sem skipið var farið að taka inn sjó þar sem það dólaði utan Vopnafjarðar á leið sinni til Akureyrar.
Axel strandaði utan Hornafjarðaróss í gærmorgun en losnaði af strandstað fyrir hádegi. Því var siglt til fáskrúðsfjarðar í gær og til hafði staðið að sigla því þaðan til Akureyrar. Vegna lekans eru þær áætlanir nú hins vegar í endurskoðun.