Varðskip er á leið til móts við flutningaskipið Axel, sem er nú að leggja af stað frá mynni Vopnafjarðar til Akureyrar. Gert er ráð fyrir að varðskipið komi að Axel síðar í dag en nákvæm tímasetning þess liggur ekki fyrir. Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar var fylgd varðskips til Akureyrar boðin fram í gær en hún afþökkuð.
Gert hafði verið ráð fyrir að varðskip kæmi að skipinu við Vopnafjörð á milli klukkan eitt og tvö en stefu þess hefur nú verið breytt í samræmi við breytta stefnu Axels.
Björgunarskipið Sveinbjörn Sveinsson frá Vopnafirði, var kallað út í morgun er beiðni barst um aðstoð við Axel, sem þá var farinn að taka inn sjó. Farið var með vatnsdælu slökkviliðsins á Vopnafirði út í skipið í morgun og er dælingu úr því nú að mestu lokið.
Axel strandaði utan Hornafjarðaróss í gærmorgun en losnaði af strandstað fyrir hádegi. Skipinu var þá siglt til Fáskrúðsfjarðar þaðan sem til stendur að sigla því til Akureyrar.