Ákveðið hefur verið að flutningaskipið Axel bíði eftir varðskipi sem mun koma að því, þar sem það er statt úti fyrir Vopnafirði, um hádegisbil í dag. Þá verða öflugar dælur og mannskapur flutt af varðskipinu um borð í Axel og síðan mun varðskipið fylgja því alla leið til hafnar á Akureyri.
Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar var skipinu meinað um leyfi til að sigla til Akureyrar í gær með tilvísun í íhlutunarreglu um verndun hafs og strandsvæða. Skipinu var því siglt frá Hornafirði til Fáskrúðsfjarðar þar sem kafarar Landhelgisgæslunnar og matsmenn eiganda og flokkunarfélags skipsins skoðuðu það.Við þá skoðun komu í ljós göt á skrokk þess sem þó voru aðeins inn í lokuð rými í skipinu, þannig að ekki var talin hætta á að leki kæmist að lestum. Að lokinni skoðun og samráði sérfræðinga var því veitt heimild fyrir því að skipið héldi áleiðis til Akureyrar þar sem til stendur að það fari í slipp. Segir varðstjóri Landhelgisgæslunnar að engin ástæða hafi verið talin til að efast um þetta mat þar sem reyndir og virtir aðilar hafi staðið á bak við það.
Um klukkan 23 í gærkvöldi, þegar skipið var statt út af Norðfjarðarflóa urðu skipverjar hins vegar varir við leka í lestum skipsins. Björgunarskipið Hafbjörg var þá sent á staðinn með dælur. Einnig voru gerðar ráðstafanir til að leggja út mengunargirðingar og að taka skipið til hafnar á Neskaupstað. Dælurnar höfðu þó vel undan að dæla sjó úr lestunum og reyndist hann ekki vera olíumengaður og því var ákveðið um miðnætti að halda ferð skipsins áfram til Akureyrar.
Rétt fyrir klukkan sjö í morgun fór skipstjóri Axels síðan fram á að fá öflugar dælur um borð í skipið þar sem lensidælur þess hefðu stíflast. Björgunarskipið Sveinbjörn Sveinsson fór á staðinn með dælur frá slökkviliðinu á Vopnafirði og gerðar voru ráðstafanir til að fá viðbótar dælur. Þá voru hafnaryfirvöld á Vopnafirði sett í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegrar komu skipsins þangað.
Vel gekk að dæla sjó úr skipinu í morgun og var því enn á ný ákveðið að sigla því áfram áleiðis til Akureyrar. Þeirri ákvörðun hefur nú verið breytt sínar fyrir tilstuðlan Landhelgisgæslunnar sem hefur gert skipstjóra skipsins að bíða komu varðskipsins áður en ferð þess verður haldið áfram.