Þungt haldin eftir árekstur

mbl.is/Júlíus

Karl og kona  liggja þungt haldin á gjörgæsludeild eftir alvarlegan árekstur sem varð í Straumi í Ártúnsholti til móts við Bröndukvísl í nótt. Grunur leikur á um hraðakstur og ölvunarakstur ökumanns annarrar bifreiðarinnar.

Tilkynnt var um stundarfjórðungi fyrir tvö í nótt að bifreið hefði verið ekið á bensínstöð N1 í Ártúnsbrekkunni. Tilkynnt var um að ökumaður hefði farið á brott af vettvangi. Þegar lögregla var á leið á staðinn var svo tilkynnt um alvarlegt umferðarslys í Straumi til móts við Bröndukvísl.

Að sögn lögreglu virðist ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, hafa ekið á á miklum hraða á öfugum vegarhelmingi framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt . Hann er alvarlega slasaður. Karl og kona voru í bifreiðinni sem ekið var á og er konan, sem var farþegi í bifreiðinni alvarlega slösuð. Fólkið liggur á gjörgæsludeild og er að sögn lögreglu þungt haldið.

Vettvangsrannsókn og hreinsun lauk um klukkan hálf-fjögur. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert