Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði þegar hann flutti skýrslu um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar á Alþingi í dag, að ef vel tækist til við uppbyggingu á fyrrum varnarsvæði yrðu fleiri störf til á Suðurnesjum en voru þegar varnarliðið hafði þar bækistöðvar á varnarsvæðinu.
Geir sagði, að ár væri liðið frá því Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust lög sem starfsemi félagsins byggja á.
„Við skulum ekki gleyma því hvernig umhorfs var á Keflavíkurflugvelli haustið 2006," sagði Geir og bætti við að 800 manns hefðu þá misst vinnuna við brotthvarf varnarliðsins. Nú störfuðu 400 manns á gamla varnarsvæðinu og starfsemin þar væri rétt að byrja. Með ólíkindum væri, að reynt væri að gera lítið úr uppbyggingarstarfinu eða gefa í skyn að ekki sé allt með feldu.
Geir sagði, að gagnrýni, sem komið hefði fram á sölu fasteigna á svæðinu væri ekki á rökum reist. 135 byggingar hefðu verið seldar til 5 aðila fyrir 15,7 milljarða króna og nær undantekningarlaust hefði hæsta tilboði verið tekið. Allar meginreglur um gagnsæi og val á hagkvæmasta tilboði hefðu verið hafðar til hliðsjónar. Ríkisendurskoðun hefði fengið í té allar upplýsingar um starfsemi þess en ekki talið sér heimilt að birta tilboð eða samninga nema með samþykki viðkomandi aðila. „Ég get fullyrt, að hvergi er maðkur í þessari mysu," sagði Geir.
Geir sagði að vegna þess hve vel hafi gengið að selja fasteignir ætti ekki að stranda á fjármagni hjá Þróunarfélaginu til að hreinsa svæðið en af því hefðu ýmsir haft áhyggjur.
Atli Gíslason, þingmaður VG, sagði að sama væri þótt markmið væru góð og tilgangur, þá bæri að gæta opinberra reglna um meðferð almannaeigna. Þessu máli væri langt frá því að vera lokið.
Sagðist Atli hafa fengið í hendur mikið af gögnum og upplýsingum, sem ekki komu fram í ræðu forsætisráðherra. Þessi gögn sýndu að megn óánægja ríkti hjá fjölda fólks, þar á meðal margra sjálfstæðismanna á Suðurnesjum, sem sendi inn tilboð í fasteigninrnar en var dregið á asnaeyrunum.