Slæmt ástand í Hafnarfirði

Björgunarsveitarmenn að störfum í Kópavogi í nótt.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Kópavogi í nótt. mynd/Haraldur Guðjónsson

Um 25 beiðnir um aðstoð hafa borist björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Hafnarfirði og eru  um 50 björgunarsveitarmenn þar að störfum. Verst hefur ástandið verið við norðurbakka hafnarinnar þar sem nokkrar nýbyggingar eru.

Einnig hafa þakplötur losnað af húsum, bílar fokið, gluggar brotnað og girðingar, vinnupallar og fánastangir farið af stað. Á einum stað fauk grill inn um glugga og á öðrum splundraðist hjólhýsi.

Við Nýjabæ í Garðaholti eru fjárhús, hlaða og vélageymsla að fjúka. Við Löngufit í Garðabæ sprakk vinnuskúr.

Einnig hafa borist hjálparbeiðnir frá Kópavogi og Reykjavík, og þá helst úr efri hverfum. Í Reykjanesbæ vinna um 30 björgunarsveitarmenn að því að hefta fok í bænum og sinna hjálparbeiðnum. Þar hafa fokið girðingar, m.a. við verslunina Byko og bátar eru að losna í höfninni.

Í Borgarnesi vinnur Björgunarsveitin Brák að því að hefta  fok frá nýbyggingum við Brákarbraut. Í Vestmannaeyjum er verið að kalla út björgunarsveit.

Upplýsingar frá Veðurstofu gefa til kynna að veðrið muni ganga niður á höfuðborgarsvæðinu upp úr klukkan eitt í nótt. 

Björgunarsveitarmenn í Strandgötu í Hafnarfirði í kvöld.
Björgunarsveitarmenn í Strandgötu í Hafnarfirði í kvöld. mbl.is/Frikki
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka