Búið er að opna Hellisheiði fyrir umferð, en ekki er gott ferðaveður þar, hálka og slæmt skyggni. Á höfuðborgarsvæðinu hafa þakplötur og lausir munir af byggingarsvæðum valdið skemmdum á bílum í Kópavogi en verst er ástandið í Hafnarfirði þar sem þök eru að fjúka í heilu lagi. Þar hafa bílar skemmst þegar brak hefur fokið á þá.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við því að vera á ferð í Valla-hverfinu í Hafnarfirði þar sem brak er að fjúka þar í veðurofsa.
Einnig er varar lögreglan fólk við því að ferðast um Reykjanesbraut þar sem drasl fýkur um veginn og veður er afarslæmt í verstu hviðunum.
Lögreglan á Suðurnesjum segir mikið annríki vera vegna veðurofsans, þakplötur, grindverk og lauslegir munir fjúka og beðið hefur verið um aðstoð hjálparsveita. Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík var kölluð út um kl 21 í kvöld vegna foks í bænum. Einnig var athugað með ástand í höfninni.
Um 150 sjálfboðaliðar aðstoða nú lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og víðar við að binda niður lausa hluti og hefta för braks. Í Hafnarfirði hafa björgunarsveitum borist um 25 beiðnir um aðstoð.
Mest er þörfin í grennd við nýbyggingar en einnig hafa þakplötur losnað, bílar fokið, gluggar brotnað og vinnupallar og fánastangir farið af stað.
Veðurstofan varar við stormi sunnan- og vestanlands fram á nótt og
talsverðri rigningu í nótt og til morguns á sunnanverðu landinu.
Varað er við stórhríð á Hellisheiði og Fróðárheiði, - og við óveðri á
Reykjanesbraut, á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli en einnig á norðanverðu
Snæfellsnesi vestan Grundarfjarðar.
Það er krap á vegi bæði á Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir
víða á Suðurlandi.
Það er vetrarfærð í öllum landshlutum, hálkublettir, hálka eða snjóþekja en
yfirleitt ekki fyrirstaða á helstu leiðum.