Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, segir að engin heimild hafi verið fyrir hendi til að taka niður innréttingarnar. Húsafriðunarnefnd hefði samþykkt árið 2005 að flytja mætti húsið með innréttingum neðar í götuna, en engin heimild hefði verið gefin fyrir því að fjarlægja innréttingarnar úr húsinu.
„Það segir í 6. gr. laga um húsafriðun að eigendur húsa sem byggð eru fyrir 1918 eigi að leita álits Húsafriðunarnefndar áður en þeir breyta húsum sínum, flytja eða rífa, eins og segir í lögunum,“ sagði Nikulás. Hann sagði að innréttingarnar hefðu verið fluttar úr verslun í Mjóafirði um 1917-18 í þetta hús á Seyðisfirði sem þá hefði verið nýbyggt.
„Verndargildi þessara innréttinga er mjög mikið. Samkvæmt húsakönnun sem Þóra Guðmundsdóttir gerði á Seyðisfirði er þetta elsta verslunarinnrétting sem til er á landinu og ég hef enga ástæðu til þess að rengja það,“ sagði hann.
Nikulás sagði einnig að að sínu mati ætti að varðveita innréttingarnar á sínum stað og nýta þær helst áfram sem verslunarinnréttingar.
Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður sagði að það hefði ekki átt að taka þessar innréttingar niður. Að hennar mati væri ekki heimild til þess, auk þess sem alls ekki ætti að flytja þær frá Seyðisfirði.
Margrét bætti því við að það væri í raun og veru menningarsögulegt slys ef þessar innréttingar yrðu fjarlægðar úr húsinu. Seyðisfjörður hefði staðið sig mjög vel í húsverndunarmálum og sýnt þar mikinn metnað. Þetta væru gamlar og vel með farnar innréttingar og þær ættu heima þar sem þær væru. „Þær eru mikils virði í þessu umhverfi og í þessari heild sem er varðveitt á Seyðisfirði, þannig að mér finnst það mjög slæmar fréttir að það eigi að fjarlægja þessar innréttingar og ég veit að það er ekki í samræmi við lög,“ sagði Margrét.
Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sagði að fundað yrði um þetta mál í fjármálaráðuneytinu fyrir hádegi í dag og ekki yrði af frekari framkvæmdum fyrr en málið hefði verið skoðað betur.
Ívar J. Arndal. forstjóri ÁTVR, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi ekkert hafa um málið að segja á þessu stigi.