Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, átti í dag fund í utanríkisráðuneytinu með Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna, vegna máls Erlu Óskar Arnardóttur, sem sætti hörkulegri meðferð á JFK flugvelli í New York fyrir nokkrum dögum. Van Voorst sagði Ingibjörgu Sólrúnu, að hún hefði sent fyrirspurn til flugvallarins og stjórnvalda í Washington vegna málsins.
Ingibjörg Sólrún sagði við Morgunblaðið, að hún hefði óskað eftir þessum fundi til að gera sendiherranum grein fyrir því að Íslendingar litu þetta mál mjög alvarlegum augum. „Að við teldum að sú meðferð, sem Erla Ósk fékk þarna á flugvellinum, hafi verið mjög niðurlægjandi fyrir hana og að að það hefði í raun verið vegið að hennar mannhelgi," sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún sagðist hafa sagt við sendiherrann, að þótt það kynni að hafa verið réttmætt að vísa Erlu Ósk úr landi vegna vegabréfsmála þá hafi framkoman við hana verið úr öllu korti og einskis meðalhófs gætt. Hefði hún sagt við van Voorst, að hún teldi að bandarísk stjórnvöld skulduðu Erlu Ósk afsökunarbeiðni.
Utanríkisráðherra sagði, að van Voorst hefði sagt henni, að hún liti málið einnig mjög alvarlegum augun. Væri hún búin að hafa samband við flugvöllinn og ráðuneyti heimavarnarmála í Washngtion til að afla frekari upplýsinga og að hún myndi láta Ingibjörgu Sólrúnu vita um niðurstöðuna.