Vilja rannsóknarnefnd um þróunarfélag

Hús á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Hús á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Þingmennirnir Atli Gíslason og Grétar Mar Jónsson hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem hefur m.a. séð um sölu á fasteignum á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.

Þingmennirnir vilja að nefndin rannsaki allt sem viðkemur sölu á fasteignunum og allt sem viðkemur kaupum Þróunarfélagsins á þjónustu, vörum og verkum. Þá rannsaki nefndin öll samskipti ráðuneyta og Þróunarfélagsins, þar með talið hvernig staðið var að stofnun félagsins og allt sem viðkemur tengslum málsaðila, mögulegum hagsmunaárekstrum og spurningum um vanhæfi.

Samkvæmt tillögunni getur nefndin aflað sér dómsúrskurðar ef með þarf til að aflétta bankaleynd eða opna aðgang að öðrum gögnum, eftir því sem nauðsynlegt reynist. Þá verði fundir nefndarinnar   haldnir í heyranda hljóði.

Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að mikil leynd hvíli yfir viðskiptum Þróunarfélagsins og sé hún einungis til þess fallin að vekja tortryggni og ýta undir grunsemdir um að farið hafi verið á svig við lög og gott viðskiptasiðferði. Þar sem félagið sé alfarið í eigu ríkisins og miklir fjárhagslegir hagsmunir séu í húfi hvíli sú skylda á herðum Alþingis að hafa eftirlit með og tryggja að lögum og reglum um meðferð opinberra fjármuna sé fylgt í hvívetna. Á því virðist hafa orðið mikill misbrestur og þegar svo sé komið málum sé nauðsynlegt að Alþingi grípi í taumana með skipun rannsóknarnefndar til að allir þættir þessa máls verði upplýstir.

Tillagan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka