Afgangur af fjárlögum hefur aldrei verið meiri en á fjárlögum 2008, sem Alþingi samþykkti í gær. Alls er gert ráð fyrir afgangi upp á 39,2 milljarða króna og að frádregnum söluhagnaði eigna er gert ráð fyrir afgangi upp á 35 milljarða.
„Þetta er mesti afgangur sem samþykktur hefur verið í desember á fjárlögum fyrir komandi ár,“ sagði Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra. Hann sagði einu gilda hvort litið væri á upphæðina eina og sér eða sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta sé metafgangur.
Hann sagði þennan mikla afgang af fjárlögum 2008 og af fjáraukalögum 2007 vera til merkis um að aldrei hefði fyrr verið ákveðið að beita jafn miklu aðhaldi í ríkisfjármálunum og nú.