Ánægjulegar lyktir á máli Erlu Óskar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

„Mér finnst þetta vera afskaplega ánægjulegar lyktir á málinu,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra varðandi það að bandaríska heimavarnarráðuneytið skuli harma þá meðferð sem íslenskur ferðamaður hlaut á flugvelli í New York nýverið.

„Ég gleðst fyrir hönd Erlu Óskar [Arnardóttur Lillandahl] að það skuli hafa verið tekið svona á því af hálfu bandaríska heimavarnarráðuneytinu. Mér finnst líka vera ástæða til þess að þakka sérstaklega bandaríska sendiherranum á Íslandi fyrir það hversu vel hún tók á málinu,“ sagði Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Þá segir Ingibjörg að það sé athyglisvert, sem fram komi í bréfinu, að heimavarnarráðuneytið telji ástæðu til þess að nota þetta tilefni til að fara yfir verkferla varðandi hvernig tekið sé á móti erlendum ferðamönnum.

Ingibjörg segir að máltækið: „Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi,“ eiga við þetta mál. Bæði varðandi það að Erla Ósk skuli hafa greint frá málinu opinberlega og hvernig íslensk stjórnvöld hafi brugðist við í framhaldinu.

„Það að Ísland er lítið land, þar sem fjarlægðir eru stuttar og allir einstaklingar skipta máli, gerir það að verkum að íslensk stjórnvöld taka þetta alvarlega. Sem hefði kannski ekki gerst í öðrum löndum,“ segir ráðherra.

„Við verðum að vona að þetta mál verði til þess að svona gerist ekki aftur,“ segir Ingibjörg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka