„Ætlunin var klárlega ekki að vera með eitthvað athyglisvert fyrir pabbana þarna inni á milli," segir Elías Þór Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Leikbæjar. Fangabúningur fyrir fullorðnar konur fór í sölu í versluninni í Smáralind, en á pakkningnum stóð „Sexy convict" eða „Kynþokkafullur fangi".
Búningurinn var á sama stað og norna- og ofurhetjubúningar á börn, en Elías Þór segir að um klaufaleg mistök hafi verið að ræða. „Málið er að við rákum Ótrúlegu búðina áður. Það hefur eitthvað skolast til af lager Ótrúlegu búðirnar á lager Leikbæjar," segir hann. „Einhver ekki nógu athugull starfsmaður hefur sett búninginn í Leikbæ."
Elías lét fjarlægja búningana úr verslunum Leikbæjar þegar blaðamaður 24 stunda lét hann vita af þeim. Hann segist vera mjög hissa á starfsmanninum að hafa ekki tekið eftir búningnum. „Leikbær er ekki að breytast í leikfangabúð fyrir fullorðna," segir hann. „Þetta er afskaplega leiðinlegt og ég vona að við höfum ekki misboðið tilfinningum fólks með þessu."
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, vildi lítið tjá sig um málið og sagðist ekki hafa fengið mikið af kvörtunum um svipuð mál inn á borð til sín. Hún sagðist þó kannast við kvartanir á borð við þessar úr starfi sínu hjá Jafnréttisstofu sem hún gegndi áður. „Mér er kunnugt um að það hafi komið sambærilegar athugasemdir um verslanir," segir hún. „Oftast bregðast búðirnar vel við."