Karlmaður lést þegar eldur kviknaði í fjögurra hæða fjölbýlishúsi í Tunguseli í Breiðholti um kl. sex í morgun. Að sögn lögreglu voru tvö börn og kona flutt á slysadeild vegna gruns um reykeitrun.
Aðrir íbúar í húsinu fá aðstoð frá Rauða krossinum. Strætisvagn var sendur á staðinn til að taka við fólki ásamt stórum bílum frá lögreglunni.
Eldurinn kviknaði í einni íbúð þar sem karlmaðurinn, konan og börnin voru.
Slökkvilið og lögregla eru enn að störfum, en búið er að ráða niðurlögum eldsins. Eldsupptök eru ókunn.