Fjölskyldur sóttar með körfubíl í Jórufelli

Fólki bjargað úr íbúð á fjórðu hæð hússins.
Fólki bjargað úr íbúð á fjórðu hæð hússins. mbl.is/Júlíus

Tvær fjölskyldur voru sóttar með körfubíl í Jórufelli í Breiðholti vegna reyks sem lagði upp stigagang eftir að kviknaði í rusli í sameign á neðstu hæð. Leikur grunur á að kveikt hafi verið í ruslinu. Var fjölskyldu bjargað með körfubíl á fjórðu hæð hússins og var verið að sækja aðra fjölskyldu á þriðju hæð nú fyrir stundu.

Að sögn Jóns Viðar Matthíassonar, slökkviliðsstjóra, var talsvert mikill reykur í húsinu og var kona sem þjáist af öndunarfærasjúkdómi flutt á slysadeild vegna óþæginda. Ekki var talið að hætta stafaði af reyknum en vegna mikils reyks var svo ákveðið að sækja  fjölskyldurnar tvær sem í húsinu voru. 

Slökkviliðinu gekk erfiðlega að reykræsta stigaganginn og brugðu sökkviliðsmenn á það ráð, að fara með körfubíl upp á þak hússins og brjóta þar þakglugga á stigahúsinu til að auðvelda reyklosun.

Strætisvagn á vegum Rauða krossins er kominn á staðinn þar sem íbúar í húsinu fá athvarf meðan á aðgerðum stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert