Laga má húsin að nýju hlutverki

„Reykjavíkurborg hefur ekki gætt húsverndarsjónarmiða við vinnslu deiliskipulags á þessum reit,“ segir Pétur H. Ármannsson arkitekt um húsin við Laugaveg 4-6. Pétur er félagi í Torfusamtökunum og á sæti í Húsafriðunarnefnd ríkisins. „Áður en hafist var handa við að deiliskipuleggja þennan reit lá fyrir álit borgarminjavarðar, þar sem hann mælti með því að þessi götumynd nyti verndar. Til þessa álits hans var ekki tekið tillit við vinnslu deiliskipulagsins,“ segir Pétur.

Hann kveður tillögu Torfusamtakanna um aukið byggingamagn á reitnum hafa verið tilraun til þess að sætta sjónarmið verslunarmanna og eigenda annars vegar og húsfriðunarsjónarmiða hins vegar, en samtökin birtu í fyrra tillögu að breytingu húsanna svo þau yrðu allt að 1.240 fermetrar með kjallara og tveimur hæðum. „Það er erfitt að hafa upphaflegt útlit á húsi sem eitt sinn var íbúðarhús með litlum gluggum, ef þar á að reka verslun,“ segir Pétur.

Hann kveður eina af mörgum mögulegum lausnum þá að lyfta húsunum upp og setja undir þau verðmæta hæð sem hentar til atvinnustarfsemi. Þá geti upphaflegt útlit og gluggaskipulag þeirra haldið sér á efri hæðinni. Fyrir þessu sé söguleg hefð við Laugaveginn. Þetta gangi ekki gegn markmiðum friðunar, sem gangi ekki síst út á verndun heildargötumyndarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert