„Ég átti mjög góðan og ánægjulegan fund með borgarstjóra í hádeginu,“ segir Anna Sigurlaug Pálsdóttir mannfræðingur, sem eins og fram hefur komið hefur boðið fram aðstoð sína í sambandi við endurbyggingu húsanna við Laugaveg 4 og 6. „Það gladdi mig mjög mikið að heyra að það er mikil jákvæðni fyrir því að vernda þessi sögulegu hús í bænum.“
Spurð hvort teknar hafi verið einhverjar ákvarðanir í framhaldi af fundinum svarar Anna því neitandi og bendir á að málið sé í ákveðinni biðstöðu þar til niðurstaða menntamálaráðherra liggur fyrir, en húsafriðunarnefnd ríkisins ákvað sem kunnugt er að beita skyndifriðun og óska eftir því við ráðherra að hún friðaði húsin.