Jóhannes Sigurðsson, stjórnarformaður Kaupangs, sem er eigandi lóða og umdeildra húseigna við Laugaveg fjögur og sex, segist vænta þess að Reykjavíkurborg standi við samning um fllutning húsanna. Borgaryfirvöld hafa samkvæmt samningnum enn vikufrest til að taka niður húsin.
Húsafriðunarnefnd hefur hins vegar gefið Kaupangi tveggja vikna frest til að skila álitsgerð í tengslum við tillögu um að húsin verði friðuð. Tímasetningarnar stangast á og er það óneitanlega sérkennileg staða.
Guðmundur Steingrímsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, segir að samningurinn við eigendur húsanna lúti að leyfi fyrir tilfærslu þeirra og ekki sé verið að brjóta hann þótt húsin fari hvergi. Hann bendir hins vegar á að líklegt sé að færa þurfi húsin hvað sem öðru líður, það geti auðveldað vinnu við endurgerð þeirra.