Íslensk stjórnvöld breyti fiskveiðistjórnunarkerfinu

AP

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur aðsetur í Genf, hefur fellt úrskurð í vil tveim íslenskum sjómönnum í máli þeirra gegn íslenskum stjórnvöldum.

Í úrskurði nefndarinnar segir m.a. að íslenska ríkinu beri að veita sjómönnunum fullar bætur og koma á fiskveiðistjórnkerfi sem uppfylli kröfur alþjóðalaga.

Sjómennirnir tveir, Örn Snævar Sveinsson og Erlingur Sveinn Haraldsson, keyptu kvótalausan bát og eftir að hafa árangurslaust reynt á fá úthlutað kvóta ákváðu þeir að fara á veiðar kvótalausir „í þeim tilgangi að fá sig dæmda af Hæstarétti og fá hann til að veita sér það sem þeir töldu vera mannréttindi samkvæmt 75. grein íslensku stjórnarskrárinnar,“ sagði lögmaður þeirra, Lúðvík Kaaber.

Umrædd stjórnarskrárgrein kveður á um að hverjum manni sé frjálst að stunda þá atvinnu sem hann kýs.

Hæstiréttur felldi úrskurði gegn Erni og Erlingi, og sendu þeir þá málið til mannréttindanefndarinnar, sem starfar samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en Ísland er aðili að þeim samningi og hefur skuldbundið sig til að virða úrskurðarvald mannréttindanefndarinnar, segir Lúðvík.

Í lok síðasta árs tók nefndin málið fyrir og felldi þann úrskurð að brotið hefði verið gegn Erni og Erlingi samkvæmt 26. grein ofangreinds alþjóðasamnings, en sú grein „er náskyld að orðalagi og efnislega samhljóða 65. grein íslensku stjórnarskrárinnar, sem er svokölluð almenn jafnréttisregla,“ segir Lúðvík.

Kveðst hann gera ráð fyrir að íslenska ríkið „framkvæmi það sem mannréttindanefndin segir að því sé skylt að gera, sem er í fyrsta lagi að veita þeim fullar bætur, og í öðru lagi að koma á fiskveiðistjórnkerfi á Íslandi sem uppfyllir kröfur alþjóðalaga.“

Úrskurð nefndarinnar má finna með því að fara á þessa síðu og þar á tengilinn „english.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert