„Það er enginn pólitíkus merkilegri en Laugavegur 4-6 í mínum huga,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, á fundi um skipulag miðbæjar Reykjavíkur um helgina.
„Það skiptir því engu máli hver skiptir um skoðun á hvaða tímapunkti eða hver ákvað hvað, því eftir 50 ár þegar húsin standa þarna og þeim hefur verið gert til góða og eru fallegur partur af götumyndinni þá verður það út yfir allt það að einhverjum sé eitthvað að þakka eða kenna. Það verðum við líka að muna sem stöndum í þeim sporum að hafa áhrif á menningarsöguna og menningarsamhengi í miðborginni.“
Annar framsögumaður á fundinum var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, doktorsnemi í skipulagshagfræði, en hann hefur rannsakað þróun og tengsl skipulagsmála og hagfræði í borgum Austur-Evrópu eftir 1989. Þær rannsóknir hafa leitt í ljós að miðbæir skipta sköpum fyrir hagsæld og mannlíf í borgum.
Þegar bornir voru saman miðbæir í mismunandi borgum mátti sjá að aðlaðandi umhverfi hafði hvað mest að segja um hvernig borgunum vegnaði. Helst mátti finna iðandi mannlíf í þeim miðbæjum sem hefðu varðveitt gamla borgarmynd og lagt áherslu á varðveislu og lagfæringar gamalla húsa í stað þess að rífa þau niður og byggja stórar, nútímalegar byggingar sem væru í engu samræmi við umhverfið. Slíkt hefði yfirleitt mjög neikvæðar afleiðingar.