Húsafriðunarnefnd ákvað á fundi, sem var að ljúka, að beita skyndifriðun fyrir húsin á Laugavegi 4-6. Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, sagði að þetta hefði verið ákveðið til að koma í veg fyrir frekari niðurrif húsanna en verktakar voru byrjaðir að rífa viðbyggingar, sem standa á milli húsanna tveggja.
Í skyndifriðun felst, að menntamálaráðherra þarf að taka afstöðu til friðunar húsanna innan tveggja vikna. Greinargerð Húsafriðunarnefndar, sem á að fylgja með tillögu til menntamálaráðherra um friðun húsanna, mun liggja fyrir 24. janúar en ráðherra þarf að taka afstöðu til friðunar fyrir 28. janúar.
Nefndin ákvað í síðustu viku að leggja til við ráðherra að friða húsin. Í byrjun ársins var gert samkomulag milli Reykjavíkurborgar og Kaupangs, eiganda húsanna, um að borgin fjarlægði húsin innan hálfs mánaðar. Sá frestur rennur út næsta föstudag.