Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar atvik sem varð á skólalóð Laugarnesskóla hinn 3. janúar, að því er talið er, þegar reynt var að nema á brott 8 ára stúlku sem er nemandi í skólanum.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu munu þrír menn á grænum bíl hafa reynt að ná barninu upp í bílinn en atvik eru um margt óljós og hefur lögreglan mjög fáar vísbendingar að vinna eftir. Atvikið mun hafa orðið á skólatíma og mun hafa verið reynt að toga barnið upp í umræddan bíl. Það tókst þó ekki og gaf stúlkan lýsingu á bílnum.
Samhliða því að atvikið var tilkynnt lögreglunni, sendi skólastjóri Laugarnesskóla bréf til allra umsjónarkennara við skólann þess efnis að brýndar yrðu fyrir nemendum ákveðnar reglur í samskiptum við aðra og að þeir stæðu fast á sínu. Jafnframt voru kennarar hvattir til að leggja sitt af mörkum til að skapa ekki ótta meðal barna.
Foreldrum var ekki gert viðvart um atvikið af hálfu skólans og er skýringin á því sú að það er Barnavernd Reykjavíkur sem ákveður framhald málsins sjálfs, samkvæmt upplýsingum Sigríðar Heiðu Bragadóttur, skólastjóra Laugarnesskóla.