Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi alþingismaður, hefur sent öllum framsóknarmönnum í Reykjavík bréf þar sem hann fjallar um fatakaup forystumanna flokksins í borgarstjórn. Fram kom í fréttum Sjónvarpsins að Guðjón Ólafur segi kaupin nema hundruðum þúsunda króna.
Bréfið er dagsett 15. þessa mánaðar og er að mestu leyti hugvekja um þá erfiðu stöðu sem Framsóknarflokkurinn standi frammi fyrir í borginni. Þá segir: „Enn grassera gróusögur, nú síðast um að forystumenn okkar í borgarstjórn hafi fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2006 keypt sér föt fyrir hundruð þúsunda á kostnað flokksins. Slíkar sögur eru leiðigjarnar og mikilvægt að forystumenn okkar leiðrétti þær sem fyrst með afgerandi hætti."
Sjónvarpið hafði eftir Birni Inga Hrafnssyni, oddvita framsóknarmanna í Reykjavík, að hann vildi ekki tjá sig um fjármál flokksins, þau hvíldu ekki á hans herðum. Hann sagðist hins vegar í tölvupósti vera afar undrandi, hryggur og leiður yfir efni bréfsins og hlyti að velta fyrir sér hvað byggi að baki.
Engar aðrar reglur giltu um forystumenn Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2006 en aðrar kosningar innan flokksins. Það vissi Guðjón Ólafur manna best sjálfur. Ásakanir og dylgjur um annað væru því ekki svaraverðar.
Guðjón Ólafur sagði við Sjónvarpið að hann hefði aldrei vitað til þess að flokkurinn fjárfesti í fatnaði á frambjóðendur sína, þeir hefðu í mesta lagi fengið lánuð föt fyrir myndatökur í kosningabaráttu.