Sæmundur Pálsson – eða Sæmi rokk eins og hann er jafnan nefndur – segist enn vera að jafna sig eftir að hafa fengið fregnir af fráfalli vinar síns, skáksnillingsins Bobby Fischer, sem lést í gærkvöldi á 65. aldursári.
Sæmundur gat varla haldið aftur af tárum sínum og sagði mikinn missi af Fischer.
Skákmenn um heim allan minnast Bobby Fischer sem einhvers helsta skáksnillings sögunnar. Hann var fæddur og uppalinn í New York, en hafði búið á Íslandi frá því 2005 eftir að hafa setið í fangelsi í Japan í tíu mánuði. Koma Fischer til landsins er sá atburður sem einkum stendur upp úr í minningu Sæmundar um hann.
Sæmundur og Bobby Fischer kynntust fyrst árið 1972, þegar Fischer háði sögulegt skákveinvígi við Boris Spasky í Reykjavík. Vinskapur þeirra hélst alla tíð - þótt á stundum væri Fischer skapmikill – og minnist Sæmundur hans með mikilli hlýju.