Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, segist telja að sagan muni dæma Bandaríkjamenn hart fyrir það hvernig þeir komu fram við skáksnillinginn Robert Fisher sem lést hér á landi í gær.
„Þetta var ein skærasta stjarna skákheimsins fyrr og síðar og það er alveg hörmulegt hvernig komið var fram við hann,” sagði Guðmundur í samtali við blaðamann mbl.is í dag.
„Hann var útskúfaður og hundeltur fyrir það eitt að færa trémenn af hvítum reitum á svarta í Júgóslavíu á grundvelli reglugerðar sem bannaði samskipti við Júgóslavíu. Hann er eini maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir brot á þessari reglugerð en vopnaframleiðendur sem brutu gegn henni hafa ekki einu sinni verið ákærðir."
Guðmundur segir það fyrsta sem komi upp í huga sinn við fráfall Fishers sé gleði yfir því að stuðningshópi hans hér á landi hafi tekist að ná honum úr fangelsi í Tókýó og að honum skyldi vera veitt honum hæli hér á landi þannig að hann gæti átt nokkur þolanleg ár undir lok ævi sinnar.
„Hann var einfari og einstæðingur en átti vini hér sem studdu hann. Mér fannst færast ákveðin ró yfir hann fyrst eftir að hann kom hingað enda fékk hann að mestu að vera í friði hér. Undir það síðasta leið honum hins vegar ekki vel og maður fann það.”
Guðmundur var einn af skipuleggjendum heimsmeistaraeinvígisins í Laugardalshöll árið 1972 og segir það hafa verið átakasaman tíma sem hafi reynt á alla sem unnu að framkvæmd mótsins.
„Loftið var þrungið spennu og það gekk á ýmsu. Oftar en einu sinni riðaði öll framkvæmdin og við héldum að við værum að missa hana út úr höndunum á okkur,” segir hann.
Guðmundur segist þó ekki hafa haft mikil bein samskipti við Fisher á þessum tíma heldur hafi hann aðallega verið í samskiptum við lögfræðinga hans og aðstoðarmenn. Hann hafi hins vegar kynnst Fisher persónulega er hann heimsótti hann í fangelsið í Japan og eftir að Fisher flutti hingað til lands.
„Þá kynntist ég því að hans innri maður var ólíkur þeim harða keppnismanni sem þjóðin kynntist árið 1972,” segir Guðmundur. „Hann var vissulega haldinn ákveðinni þráhyggju en var einnig mikill hugsjónamaður og allra manna hjálplegastur.”