Stjórn Kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Reykjavík segir í yfirlýsingu, að trúnaðarbréf, sem Guðjón Ólafur Jónsson, fyrrverandi alþingismaður sendi framsóknarmönnum í Reykjavík í pósti, hafi verið vanhugsað og alls ekki flokknum og starfinu í Reykjavík til framdráttar.
Í stjórninni eiga m.a. sæti formenn allra félaga framsóknarmanna í Reykjavík.
„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík tapaði fylgi í síðustu Alþingiskosningum. Það hafði áhrif á allt starf flokksins í borginni. Nú um stundir eigum við einn borgarfulltrúa sem við stöndum fyllilega við bakið á. Á síðustu misserum hafa átt sér stað ýmsar skipulagsbreytingar og markvisst verið unnið að því að skipuleggja innra og ytra starf flokksins. Að þessum breytingum hefur komið fjöldinn allur af áhugasömu fólki sem er tilbúið að leggja sig fram í starfi fyrir Framsóknarflokkinn. Allir þeir sem hafa raunverulegan áhuga á að leggja flokknum og starfinu hér í Reykjavík lið geta fundið sér farveg, tekið þátt í málefnastarfi og eðlilegum skoðanaskiptum. Stjórn KFR telur því trúnaðarbréf sem framsóknarmenn í Reykjavík fengu sent í pósti vanhugsað og alls ekki flokknum og starfinu hér í Reykjavík til framdráttar," segir í yfirlýsingunni.